mánudagur, 23. mars 2009

Staðan

Yes, þá er ennþá bara verið að vinna á fullu. Nú erum við komin með dagsetningu til að stefna að, því Halldóra vinkona er að fara að koma í heimsókn með stelpurnar sínar tvær og þær gista hjá okkur. Þær koma eftir 12 daga (!) og verða í 17 daga. Svo núna er allt kapp lagt á að klára baðherbergið. Það er búið að ganga ágætlega hjá Rikka, hann er búinn að byggja smá kant í kringum sturtubotninn, búinn að flísaleggja mestan hluta af gólfinu og allan klósettkassann. Og er búinn að kvoða sturtuna og í kringum baðið. Í kvöld var hann að vinna í að smíða grind í kringum baðkarið, en svo sá hann allt í einu að það lekur niðurfallið, svo hann gat ekki lokað þar í kring. Vonandi næst það á morgun. Flísalögn á veggi ætti að geta byrjað í vikunni og þegar hún er búin og fúgan, þá er bara að festa upp innréttingar og tengja tæki.

Krossum fingur að það takist fyrir heimsóknardag!

Að öðru leyti er búið að festa upp screen gardínurnar fyrir palla hurðina (og svalahurðina uppi), en annað er ekki búið.

þriðjudagur, 10. mars 2009

Nýjustu fréttir

Frá síðasta pósti er mesta vinnan búin að liggja í þvottahúsinu. Það er búið að flísaleggja gólfið (en á eftir að fúga) og búið að tengja þvottavélina og þurrkarann. Það var mikið stökk og frábært að fá það í gang. Þvottavélin kom í gang um þarsíðustu helgi, þ.e. um mánaðarmótin, mánuði eftir að við fluttum inn. Um síðustu helgi kom svo fataskápurinn í forstofuna upp. Síðustu höldurnar á eldhúsinnréttinguna eru líka komnar og ég er búin að mála í kringum gluggann í stofunni. Þá er eftir að mála í kringum gluggann í eldhúsinu og inná gestaklósetti og svo í kringum útidyrahurðina. Við bárum upp glerið fyrir sturtuklefann og baðkarið, ég grunnaði gólfið á stóra baðinu í gær og Rikki keypti vikurstein til að búa til kant fyrir sturtuna. Hann festi hann niður í kvöld og setti fyrstu röndina af flísum. Þá er alla vega flísavinnan byrjuð á baðherberginu. Vonandi náum við að tengja baðkarið fljótlega, svo hægt sé að baða börnin (og okkur) án þess að fara útúr húsi. Sérstaklega þar sem prinsinn á heimilinu er að hætta með bleiu, þá er svolítið erfitt að geta ekki baðað hann þegar svo stendur til. Á meðan notumst við bara við eldhúsvaskinn!

Myrkvagardínurnar fóru upp í gestaherberginu fyrir komu Palla og Dísu og hurðarhúnninn líka. Screen tjöldin í stofugluggann á neðri hæðinni fóru upp eftir málningu, en við erum ekki búin að setja upp fyrir svala/palla hurðina. Við ætlum eitthvað að bíða með að setja screen tjöldin fyrir eldhúsgluggann, ég er ekki viss hvort ég vilji fá það upp, alla vega ekki strax, á meðan við höfum útsýnið. Í vikunni fékk ég svo að vita að Halldóra vinkona ætlar að koma í heimsókn frá USA í byrjun apríl með tvær dætur sínar og gista þær hjá okkur. Þá verður baðherbergið að vera komið í gang, svo það heldur okkur við efnið.

Kveðja í bili!