mánudagur, 27. október 2008

Vinnan byrjuð

Rikki byrjaði um helgina að koma upp handriði í kringum stigann. Það er að mestu komið upp, en vantar, að mér skilst, nokkrar spýtur til að klára það alveg. Nú svo fór Rikki í gær og byrjaði að slípa steyptu veggina fyrir spartl. Það er algjör skítavinna og fór ryk útum allt. Hann sagði að hann hefði þurft að slökkva á vélinni á ca. 5 mín fresti, því þá var rykið orðið svo mikið að hann sá ekki handa sinna skil. Hann ætlar svo að leigja stærri vél í dag sem er með ryksugustút á, svo vonandi fer þá allt rykið þangað. Kristján bróðir hans ætlar líka að hjálpa honum. Vonandi gengur þetta vel hjá þeim.

þriðjudagur, 21. október 2008

Nýjustu fréttir

eru þær að það er verið að flota á fullu. Átti að gerast í síðustu viku, svo átti það að gerast á mánudag, en þeir hafa rétt byrjað á bílskúrnum í gær og tóku efri hæðina greinilega í morgun. Svo er bara spurning hvort þeir nái að klára neðri hæðina og stigann í dag, eða hvort það gerist á morgun. Við komumst þá ekki almennilega inn fyrr en seinni part þessarar viku.

fimmtudagur, 16. október 2008

Staðan í dag

Við fórum og kíktum uppeftir áðan. Það er búið að tengja alla ofna, búið að múra/steypa uppí öll göt eftir fræsun og búið að sópa og hreinsa. Við búumst þá við að það verði flotað á morgun. Hérna eru myndir sem ég tók áðan, svo sem ekki mikið að sjá öðruvísi, nema það er komin tengistokkurinn og hérna eru þá myndir af þeim herbergjum sem einhverra hluta vegna tókust ekki í fyrstu atrennu.

Við kíktum líka í Álfaborg og skoðuðum flísar. Við erum búin að vera að velta fyrir okkur hvort það verði erfitt að finna flísar sem passa við dökku innréttinguna sem við erum búin að vera að hugsa mest um. En við fundum flísar sem okkur líst vel á. Þær koma líka í nokkrum litatónum og nokkrum stærðum, svo þær henta vel á gólf og veggi og á eldhús, forstofu og gestabað, eins og hugsunin hjá okkur var, að láta þær flæða á milli. Við fengum prufur af nokkrum og ætlum að fara á morgun í IKEA að máta þær við innréttinguna. Við fórum líka að skoða klósett, vaska, blöndunartæki, baðinnréttingar ofl. hjá Kjartani (manni Birnu sem vinnur með mér) og okkur leist ágætlega á, ætlum að kanna verðið og sjá hvort við viljum taka það. Annars fáum við sjálfsagt líka einhvern afslátt í Baðheimum, þurfum að fara þangað líka að skoða.

Jæja, hérna koma myndirnar:

Þetta eru tengi"græjurnar" í bílskúrnum, þ.e. inntökin oþh.

ofnarnir í bílskúrnum. Innri ofninn á að vera í geymslunni sem er innaf bílskúrnum.

Stofuglugginn og hurðin útí bakgarð

"Borðkrókurinn" og stofan. Þ.e. þarna kemur tungan á eldhúsinnréttingunni sem skilur að stofu og eldhús.

Eitt barnaherbergið uppi sem varð útundan í myndatöku síðast. Það er við hliðina á baðherberginu, enda sjást þarna rörin uppúr gólfinu sem eru fyrir sturtuna.

Tengistokkurinn í þvottahúsinu og þar fyrir aftan er hjónaherbergið.

Hjónaherbergið. Litli glugginn og ofninn sem rétt sést í þarna lengst til hægri eru inni í fataherberginu.

Þarna er baðherbergið og síðasta barnaherbergið, það stærsta.

Rikki á leiðinni niður aftur.

mánudagur, 6. október 2008

Heimilistæki

Jæja, þá eru heimilistækin í höfn. Eigum reyndar eftir að fara í Húsasmiðjuna og ganga frá greiðslu. Við ákváðum að taka tilboði frá þeim sem var með keimlíkum vörum og í tilboðinu frá Rafha, nema það var með ódýrari ofni. Heildarverðið var þó um 50 þús lægra. Við tókum s.s. amerískan ísskáp, bakaraofn, keramík helluborð, hálf-innbyggða uppþvottavél (þ.e. stjórnborðið sést) og barkalausan þurrkara. Okkur leist ekki nógu vel á háfa hjá Húsasm. svo við ákváðum að bíða með það og kannski taka háf annars staðar eða alla vega skoða það mál betur. Fyrir þessi herlegheit borgum við svo um 615.000.-! Þá er bara að borga og brosa.

föstudagur, 3. október 2008

Meira að gerast

Nú er rafmagn komið inní hús og í gang. Kíktum í gær og það er búið að fræsa úr gólfum að hluta fyrir ofnalögnunum. Þetta er allt á réttri leið.

Í gær kíktum við líka í IKEA og hittum þar Guðbjörgu og spjölluðum aðeins við hana og annan starfsmann. Við ætlum að fara í að fá þau til að teikna upp fyrir okkur eldhúsið og koma með hugmyndir. Við Rikki vorum sammála um að okkur finnst NEXUS svarbrúna innréttingin svolítið flott, en vorum að spá hvort hún væri of dökk. Okkur líst líka vel á birki innréttinguna, en hún á það víst til að gulna svolítið, svo hún endist kannski ekki eins vel. Kemur allt í ljós.
Svo er ég búin að vera að fá tilboð frá ýmsum fyrirtækjum í heimilistæki og tilboðið sem heillar mig mest eins og er er frá Rafha. Ætlum að kíkja þangað um helgina.

Kveðja frá húsbyggjaranum!

miðvikudagur, 1. október 2008

Allt að komast í gang

Í gær fengum við lyklana að húsinu. Við fórum svo í gærkvöldi að skoða. Það er búið að hengja upp ofnana, en þeir eru enn ótengdir. Svo þurfum við bara að fara að byrja á okkar hluta. Fyrst liggur fyrir að einangra loftið. Við þurfum samt líklega að bíða þangað til ofnarnir eru alveg komnir upp og búið að flota gólfin. Það verður kannski ekki fyrr en í næstu viku eða þarnæstu. En við ætlum líka að reyna að koma gestaklósettinu upp. Mig langar að koma upp þessum tveimur litlu veggjum sem við þurfum að setja á neðri hæðina, til að hægt sé að spartla þar og halda áfram, koma upp eldhúsi oþh. Hérna koma myndir teknar í gær. Einhverra hluta vegna myndaðist ekki hjónaherbergið og eitt barnaherbergið, en hér er alla vega restin.