sunnudagur, 21. desember 2008

Góð verklok

Á gipsvinnunni. Rikki fór uppí hús áðan og kláraði að gipsa þau loft sem eftir voru með Bogga. Það á reyndar eftir að gipsa einn vegg í þvottahúsinu og svo loftið þar. Píparinn á enn eftir að klára vinnuna sína áður en hægt er að loka veggnum og lofttúðan lekur svo blikkarinn þarf að laga það áður en hægt er að loka loftunum. Málarinn ætlaði ekki að koma meira fyrir jól, en vonandi nýtir hann tímann milli jóla og nýárs vel. Hann var aðeins byrjaður að spartla aukaherbergið, sem var eina herbergið sem var tómt þegar hann var að klára niðri fyrir helgi. Dútl um jólin verður s.s. að tæma efri hæðina fyrir málarann og koma bílskúrnum í vinnuhæft ástand, nú fer hann að verða vinnusvæðið.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Staðan fyrir jól

Nú er byrjað að setja gipsplötur í loftin, eins og sést á meðfylgjandi myndum. Siggi frændi er búinn að draga í allt, nema einhver rör sem eru stífluð og jafnvel ekkert hægt að gera í. Hann er líka búinn að koma rússaperum upp í flestum rýmum. Stefnan er að klára að setja upp loftin í TV holið og á ganginn í kvöld og svo verður Rikki í fríi úr vinnunni á morgun og þá stefna þeir Freyr á að setja upp mikið af plötunum í herbergin. Píparinn er búinn að gera mikið af röravinnunni, en það á eftir að þrýstiprófa áður en vatninu er hleypt á kerfið. Veit ekki hvernig staðan er með það, hvenær það er á dagskrá. Nú erum við hjónin að velta sturtumálum fyrir okkur, hvort við fáum okkur sturtu beint á gólf, eða með botni. Það þarf að fara í smá meiri brot vinnu ef það á að setja sturtuna á gólfið og þá þarf líka að vanda meira til verks með flotun á gólfinu. Með sturtubotni er svo auðvelt að skella honum bara á gólfið og hugsa ekkert meira um það. Það er líka ódýrara. En hitt er flottara. Reyndar er það ekkert stórt mál fyrir mér, en við ætlum að velta þessu fyrir okkur. Hér koma myndirnar af loftinu í ganginum og holinu yfir stiganum:

sunnudagur, 14. desember 2008

Málari byrjaður

Hérna eru nokkrar myndir af fyrstu umferð spörtlunar. Málarinn er búinn að standa sig vel, hann er búinn að spartla neðri hæðina næstum alveg, á eftir að taka eina umferð á loftinu. Svo þarf að pússa og grunna. Píparinn er líka búinn að koma og hann er búinn að vera að setja upp rörin og tengingar. Báðir klósettkassarnir eru komnir upp en það á eftir að tengja þá.




mánudagur, 8. desember 2008

Nokkrar myndir

Jæja, þá er ég loksins búin að taka nýjar myndir. Hérna fyrir neðan koma þær. Nú fer að síga á seinni helminginn á þessari vinnu okkar. Bæði málari og pípari eru búnir að lofa að koma á morgun, svo þá er bara að vona að þeir standi við það. Það er svolítið farið að standa á píparanum. Hann þarf að koma og ganga frá lögnunum, svo hægt sé að loka síðustu veggjunum. Málarinn byrjar að spartla neðri hæðina og um leið og það er búið færir hann sig upp þar sem þá verður vonandi búið að loka veggjunum og koma rafmagnsgrindinni í loftin og ljósadósunum þar í. Þá geta hinir kallarnir flutt sig niður og byrjað að flísa- og parketleggja og hengja upp eldhúsinnréttingu. Vonum það besta!
Þetta er þetta gullfallega handrið loksins komið upp á svalirnar okkar. Það á greinilega eftir að setja plöturnar í það.

Þetta er inní herberginu hennar SM, þarna eru fínu klósettskálarnar okkar.

Rikki að skrúfa upp rafmagnsgrindina í baðherberginu.

Kristján er að sjálfsögðu búinn að finna rafmagnsrör og byrjaður að nota það fyrir byssu. Stend inní aukaherberginu og tek myndina beint fram (framhjá baðherberginu og innum hurðina hinum megin inní herbergið hennar SM.

Allt vinnudraslið inní herbergi Stjána Dan.

Siggi að undirbúa ídrátt í rafmagns- og sjónvarpstengin inní hjónaherbergi. Boggi duglegur að hjálpa.

Boggi að fylgjast með ídrættinum í loftadósinni inní hjónaherbergi.

Þarna er annar klósettkassinn kominn upp inná stóra baði.

Fínt sjónarhorn af stiganum og fína handriðinu.

Stiginn séður neðan frá. Frábær frágangur!

Hurðirnar og karmarnir geymdir inní eldhúsi!

fimmtudagur, 4. desember 2008

Gólfefni

ATH að það er nýr póstur líka fyrir neðan. En þessi póstur er um gólfefni. Nú er ég búin að taka rúnt á nokkra staði og fá fullt af flísaprufum og plastparket prufum. Hérna eru myndir af þessu líka. Ein myndin er af einni flís og einu parketi, það er það sem mér líst best á og kemur úr Álfaborg. Þarf að bera þetta undir Rikka og sjá hvort ég fái samþykki frá honum.



Stiga"veggir"

Hérna eru nokkrar myndir af stigahandriðinu. Það er reyndar komið betur upp núna og er alveg tilbúið. Málarinn ætti að koma á morgun eða strax eftir helgi og byrja á neðri hæðinni. Rafmagnsgrindin er komin upp í hjónaherbergi og Siggi er á fullu að koma dósunum inní veggina og það er búið að loka fullt af veggjum. Svo stendur núna á píparanum en hann kemst víst ekki fyrr en eftir helgi í fyrsta lagi. Áðan var fullt af fólki að vinna uppí húsi. Siggi frændi í rafmagninu, Freyr í veggjunum, Boggi var kominn í múrbrot og burð á gipsplötum, Kristján Björn var kominn líka eitthvað að skoða sig um og afi að hjálpa til. Svo var Rikki auðvitað í öllu. Flestir veggirnir eru bara að verða komnir og lokaðir, það eru bara aðallega veggirnir þar sem pípulögn er, sem á eftir að ganga frá. Jæja, hérna koma myndirnar:


föstudagur, 28. nóvember 2008

allir veggir komnir

Jæja, þá eru svo til allir veggir komnir. Við tókum þá ákvörðun að setja gips"vegg" niður stigann í stað stigahandriðs. Hann verður s.s. um 80-90 cm hár, eins og kröfur gera ráð fyrir. Það er mun einfaldari lausn, heldur en að kaupa eitthvað gler- eða stál/járn handrið. Ofan á handriðið getum við svo alltaf sett einhverja plötu t.d. eikar sem betra tak og uppá lúkkið.

Efni í rafmagnsgrindina er komið að hluta og þegar stiginn er búinn býst ég við að þeir fari í það. Siggi frændi gat byrjað að setja dósir og rör inní veggina, svo það er hægt að loka einhverjum veggjum. Málarinn kom ekki í vikunni, enda kannski ekki alveg tímabært fyrir hann að koma, en um leið og það er búið að ganga frá veggjunum og rafmagnstöflunni niðri getur hann komið og byrjað vonandi að spartla neðri hæðina.

Ég fór svo á smá flísarúnt og er komin með gott safn af sýnishornum hérna heim. Ég fór líka í bílskúrinn til tengdó og náði í hurð af eldhúsinnréttingunni til að máta við flísarnar. Mér sýnist við enda í einhvers konar beis lit á flísunum, en núna snýst það allt um að finna réttu áferðina og stærðina. Ætla að kíkja betur í Álfaborg og sjá hvort þeir eigi eitthvað fyrir okkur eins og ég er að hugsa. Ég fann ágætar flísar í Húsasmiðjunni, á viðráðanlegu verði, en þær eru kannski fullstórar, eru 45cm x 45cm þannig að þær eru frekar erfiðar í uppsetningu á t.d. veggi. En það getur vel verið að kannski verði lausnin bara sú að fara í mósaík eða eitthvað þess legt á veggi og klósettkassa.

Jæja, nóg raus í bili, heyrumst seinna.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Fullt af myndum

Nú finnst mér bara allt vera að koma. Það eru næstum allir veggir uppi komnir upp. Til upprifjunar set ég hér mynd af skipulaginu á efri hæðinni þannig að fólk átti sig á lýsingunum hjá mér. Herbergið sem er beint á móti hjónaherberginu verður að öllum líkindum Kristjáns herbergi og kallast hér með Stjána herbergi. Herbergið sem er á milli sjónvarpsholsins og baðherbergisins er þannig Söru herbergi og svo er aukaherbergið á milli baðherbergisins og þvottahússins.



Hér sést innan í Stjána herbergi.

Og svo hinn hlutinn af Stjána herbergi

Hérna sést fataherbergið innum hurðina inní hjónaherbergið

Þarna mun hjónarúmið okkar koma.

Þarna sést fataherbergið innan úr hjónaherbergi séð

Hér er svo komið fínasta baðherbergi

Þarna á eftir að setja upp einn síðasta vegginn. Það er til að skilja að herbergið hennar SM og sjónvarpsherbergið

Þarna sést Stjána herbergi "utan frá" og sjónvarpsholið þar við hliðina á.

Hér stend ég inní þvottahúsinu og tek myndina fram. NB þetta þvottahús er rúmir 8 fermetrar! OMG hvað ég dýrka það!

Þetta er litli gang stubburinn sem er inn í aukaherbergið og þarna eru Rikki og Freyr að vinna á fullu inní baðherberginu að koma síðasta veggnum þar upp.

Hér erum við inní aukaherberginu. Það var fullt af einangrunarull, svo það var mjög erfitt að taka mynd þannig að eitthvað vit væri í.

Hér sést frábær múrbrotsvinna sem Rikki og Hákon fóru útí til að geta haft sturtu á gólfi og án þess að þurfa að setja rörin inní vegginn.

Hér stend ég inn í verðandi Söru herbergi, á vinstri hönd er veggurinn sem skilur að baðherbergið og hennar herbergi en þarna áfram sjáum við stigann og hurðina inní hjónaherbergi.

og svo önnur aðeins lengra til hægri, þá sjáum við hvar sjónvarpsholið verður til hægri á myndinn og vegginn þar sem skilur að Stjána herbergi og TV holið.

S.s. nóg að gerast og allt á fullu. Siggi frændi á fullu að vinna í rafmagninu, komst reyndar ekki í dag og við vitum ekki með morgundaginn. En málarinn ætti að koma fljótlega í vikunni til að mæla verkið út, Rikki ætlar að vera í sambandi við píparann líka á morgun eða hinn og næsta verk smiðsins (Freys) og Rikka og co. verður að koma upp rafmagnsgrindinni í loftið.

Svaka fjör!

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Vinnan heldur áfram

Veggirnir rjúka upp og rafvirkinn (Siggi frændi) er byrjaður. Ég fór uppí hús í dag og tók nokkrar myndir af þessum gullfallegu veggjum!

Hérna sést innan í þvottahúsið, frá svefnherberginu, en þarna kemur auðvitað veggur á milli. Hurðin sem sést þarna er s.s. hurðin inn í þvottahúsið.


Þetta er gangurinn á efri hæðinni út á svalir. Til hægri er minnsta barnaherbergið, líklega verður það herbergið hans Kristjáns, alla vega til að byrja með. Til vinstri er hjónaherbergið.


Þarna er Rikki á fullu að koma upp veggjunum í fataherberginu. Ég stend inní hjónaherberginu og tek myndina út þarna sjást bæði hurðin inní svefnherbergið okkar og þar beint á móti hurðin inní Stjána herbergi. Þarna til vinstri verður s.s. fataherbergið inní hjónaherberginu.


Þetta er annað sjónarhorn af hjónaherberginu og fataherberginu. Það er alveg komið upp núna, fataherbergið.


Hérna sjáum við þvottahúsið, hurðina inní það og þessi litli veggur vinstra megin á myndinni skilur að baðherbergið og ganginn. í endanum á þessum gangi kemur svo hurðin inní aukaherbergið.


Hér er aftur mynd af stigaopinu og veggjunum þar í kring. Bak við vegginn sem er beint af augum er þvottahúsið og hægra megin við stigann sést inní hjónaherbergið.


Þarna er aftur veggstubburinn sem skilur að baðherbergið og ganginn og þarna sést glugginn í aukaherberginu.


Þetta herbergi er komið, það er Stjána herbergi og svo gangurinn út að svalahurðinni.


Svo læt ég hér fylgja með eina mynd að utan. Eina húsið í lengjunni sem er upplýst!

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Gaman að sjá árangur

Veggirnir halda áfram að rísa, nú eru komnir veggir á tvo vegu í kringum stigann og einn veggur í minnsta barnaherberginu. Það er mjög gaman að sjá svona árangur allt í einu. Eins og sést á myndunum er greinilega mikið ryk í húsinu.

Þetta er veggurinn í minnsta barnaherberginu, séð innan frá
hérna sést sami veggur hinu meginn frá, þar verður gangur útá svalir. Þessi litli veggjarstubbur sem sést þarna lengst til vinstri er við stigaopið og þar fyrir aftan kemur inngangur í hjónaherbergið til vinstri. Þessi veggur verður vonandi styttur niður í hálfan vegg, til að hleypa betur birtu inná hæðina.
þarna eru Rikki og Valdi að labba niður stigann og þarna sjást veggirnir tveir sem eru komnir við stigaopið.