föstudagur, 28. nóvember 2008

allir veggir komnir

Jæja, þá eru svo til allir veggir komnir. Við tókum þá ákvörðun að setja gips"vegg" niður stigann í stað stigahandriðs. Hann verður s.s. um 80-90 cm hár, eins og kröfur gera ráð fyrir. Það er mun einfaldari lausn, heldur en að kaupa eitthvað gler- eða stál/járn handrið. Ofan á handriðið getum við svo alltaf sett einhverja plötu t.d. eikar sem betra tak og uppá lúkkið.

Efni í rafmagnsgrindina er komið að hluta og þegar stiginn er búinn býst ég við að þeir fari í það. Siggi frændi gat byrjað að setja dósir og rör inní veggina, svo það er hægt að loka einhverjum veggjum. Málarinn kom ekki í vikunni, enda kannski ekki alveg tímabært fyrir hann að koma, en um leið og það er búið að ganga frá veggjunum og rafmagnstöflunni niðri getur hann komið og byrjað vonandi að spartla neðri hæðina.

Ég fór svo á smá flísarúnt og er komin með gott safn af sýnishornum hérna heim. Ég fór líka í bílskúrinn til tengdó og náði í hurð af eldhúsinnréttingunni til að máta við flísarnar. Mér sýnist við enda í einhvers konar beis lit á flísunum, en núna snýst það allt um að finna réttu áferðina og stærðina. Ætla að kíkja betur í Álfaborg og sjá hvort þeir eigi eitthvað fyrir okkur eins og ég er að hugsa. Ég fann ágætar flísar í Húsasmiðjunni, á viðráðanlegu verði, en þær eru kannski fullstórar, eru 45cm x 45cm þannig að þær eru frekar erfiðar í uppsetningu á t.d. veggi. En það getur vel verið að kannski verði lausnin bara sú að fara í mósaík eða eitthvað þess legt á veggi og klósettkassa.

Jæja, nóg raus í bili, heyrumst seinna.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Fullt af myndum

Nú finnst mér bara allt vera að koma. Það eru næstum allir veggir uppi komnir upp. Til upprifjunar set ég hér mynd af skipulaginu á efri hæðinni þannig að fólk átti sig á lýsingunum hjá mér. Herbergið sem er beint á móti hjónaherberginu verður að öllum líkindum Kristjáns herbergi og kallast hér með Stjána herbergi. Herbergið sem er á milli sjónvarpsholsins og baðherbergisins er þannig Söru herbergi og svo er aukaherbergið á milli baðherbergisins og þvottahússins.



Hér sést innan í Stjána herbergi.

Og svo hinn hlutinn af Stjána herbergi

Hérna sést fataherbergið innum hurðina inní hjónaherbergið

Þarna mun hjónarúmið okkar koma.

Þarna sést fataherbergið innan úr hjónaherbergi séð

Hér er svo komið fínasta baðherbergi

Þarna á eftir að setja upp einn síðasta vegginn. Það er til að skilja að herbergið hennar SM og sjónvarpsherbergið

Þarna sést Stjána herbergi "utan frá" og sjónvarpsholið þar við hliðina á.

Hér stend ég inní þvottahúsinu og tek myndina fram. NB þetta þvottahús er rúmir 8 fermetrar! OMG hvað ég dýrka það!

Þetta er litli gang stubburinn sem er inn í aukaherbergið og þarna eru Rikki og Freyr að vinna á fullu inní baðherberginu að koma síðasta veggnum þar upp.

Hér erum við inní aukaherberginu. Það var fullt af einangrunarull, svo það var mjög erfitt að taka mynd þannig að eitthvað vit væri í.

Hér sést frábær múrbrotsvinna sem Rikki og Hákon fóru útí til að geta haft sturtu á gólfi og án þess að þurfa að setja rörin inní vegginn.

Hér stend ég inn í verðandi Söru herbergi, á vinstri hönd er veggurinn sem skilur að baðherbergið og hennar herbergi en þarna áfram sjáum við stigann og hurðina inní hjónaherbergi.

og svo önnur aðeins lengra til hægri, þá sjáum við hvar sjónvarpsholið verður til hægri á myndinn og vegginn þar sem skilur að Stjána herbergi og TV holið.

S.s. nóg að gerast og allt á fullu. Siggi frændi á fullu að vinna í rafmagninu, komst reyndar ekki í dag og við vitum ekki með morgundaginn. En málarinn ætti að koma fljótlega í vikunni til að mæla verkið út, Rikki ætlar að vera í sambandi við píparann líka á morgun eða hinn og næsta verk smiðsins (Freys) og Rikka og co. verður að koma upp rafmagnsgrindinni í loftið.

Svaka fjör!

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Vinnan heldur áfram

Veggirnir rjúka upp og rafvirkinn (Siggi frændi) er byrjaður. Ég fór uppí hús í dag og tók nokkrar myndir af þessum gullfallegu veggjum!

Hérna sést innan í þvottahúsið, frá svefnherberginu, en þarna kemur auðvitað veggur á milli. Hurðin sem sést þarna er s.s. hurðin inn í þvottahúsið.


Þetta er gangurinn á efri hæðinni út á svalir. Til hægri er minnsta barnaherbergið, líklega verður það herbergið hans Kristjáns, alla vega til að byrja með. Til vinstri er hjónaherbergið.


Þarna er Rikki á fullu að koma upp veggjunum í fataherberginu. Ég stend inní hjónaherberginu og tek myndina út þarna sjást bæði hurðin inní svefnherbergið okkar og þar beint á móti hurðin inní Stjána herbergi. Þarna til vinstri verður s.s. fataherbergið inní hjónaherberginu.


Þetta er annað sjónarhorn af hjónaherberginu og fataherberginu. Það er alveg komið upp núna, fataherbergið.


Hérna sjáum við þvottahúsið, hurðina inní það og þessi litli veggur vinstra megin á myndinni skilur að baðherbergið og ganginn. í endanum á þessum gangi kemur svo hurðin inní aukaherbergið.


Hér er aftur mynd af stigaopinu og veggjunum þar í kring. Bak við vegginn sem er beint af augum er þvottahúsið og hægra megin við stigann sést inní hjónaherbergið.


Þarna er aftur veggstubburinn sem skilur að baðherbergið og ganginn og þarna sést glugginn í aukaherberginu.


Þetta herbergi er komið, það er Stjána herbergi og svo gangurinn út að svalahurðinni.


Svo læt ég hér fylgja með eina mynd að utan. Eina húsið í lengjunni sem er upplýst!

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Gaman að sjá árangur

Veggirnir halda áfram að rísa, nú eru komnir veggir á tvo vegu í kringum stigann og einn veggur í minnsta barnaherberginu. Það er mjög gaman að sjá svona árangur allt í einu. Eins og sést á myndunum er greinilega mikið ryk í húsinu.

Þetta er veggurinn í minnsta barnaherberginu, séð innan frá
hérna sést sami veggur hinu meginn frá, þar verður gangur útá svalir. Þessi litli veggjarstubbur sem sést þarna lengst til vinstri er við stigaopið og þar fyrir aftan kemur inngangur í hjónaherbergið til vinstri. Þessi veggur verður vonandi styttur niður í hálfan vegg, til að hleypa betur birtu inná hæðina.
þarna eru Rikki og Valdi að labba niður stigann og þarna sjást veggirnir tveir sem eru komnir við stigaopið.






þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Fleiri veggir

Núna er Rikki í húsi að vinna að því að koma fleiri veggjum upp (held ég örugglega). Vonandi gengur vel hjá þeim í kvöld. Blikkarinn sem átti að koma í dag kom ekki, því hann sagði að veðrið væri ekki gott fyrir þessa vinnu. Í gær var Rikki svo slappur, hélt að hann væri að verða veikur, svo hann fór ekkert uppí hús. Jú, aðeins til að hitta rafvirkjameistarann, sem var víst svona mikill leiðindakall. Við höfðum svo samband við Sigga frænda, en hann sagðist geta unnið verkið fyrir okkur, en þá þurfum við að skipta um meistara. Okkur líst reyndar betur á það, en að þurfa að nota hinn skarfinn. Svo var mikil spurning um hvort ætti að koma á undan, milliveggirnir uppi eða rafmagnsgrindin í loftið og úr varð að veggirnir koma fyrst. Rikki fór s.s. uppí hús áðan með Frey, nágranna, og ég held að til hafi staðið að reisa nokkra veggi. Það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út. Siggi frændi ætlar stefnir svo á að koma á morgun til að kíkja á rafmagnið og þá er vonandi hægt að byrja á þeirri vinnu. Þegar það er byrjað og komið að hluta er hægt að spartla neðri hæðina. Þetta er s.s. bara allt að koma, svaka fjör!

föstudagur, 14. nóvember 2008

myndir

Núna koma loksins myndir af fyrstu veggjunum. Litlu veggirnir tveir í forstofunni sem skilja að forstofu og eldhús annars vegar og forstofu og gestaklósett hins vegar eru komnir að mestu upp. Báðar myndirnar eru voða mikið af sama veggnum, önnur sýnir meira eldhúsið, hin sýnir meira "holið" fyrir framan forstofuna en í gegnum hurðargatið sér maður akkúrat í gegnum hurðargatið inná gestaklósettið:






Hérna eru Freyr og Rikki að vinna að því að koma leiðurunum niður fyrir herbergin á efri hæðinni.


Veggir

Fyrstu veggirnir byrjuðu að rísa í gær. Freyr byrjaði að setja upp veggina tvo á neðri hæðinni. Þeir eru komnir upp öðru megin, s.s. það á eftir að klæða gipsið á öðru megin, því að það þarf að setja rafmagn og eitthvað fleira inní veggina áður en þeim er lokað. Ég er bara hæst ánægð og hlakka til að geta tekið myndir til að sýna ykkur!

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Veggir

Nú er allt efni fyrir gipsveggina komið í hús og í gær fór Rikki uppeftir og hitti Frey, nágranna okkar sem ætlar að hjálpa okkur að koma þeim upp. Þeir byrjuðu aðeins á veggjunum á neðri hæðinni og vonandi ná þeir að reisa þá fyrir helgi. Þá er allt tilbúið á neðri hæðinni fyrir spartl. Rikki var búinn að tala við málarann og hann virtist geta komið fljótlega. Ef það gengur upp þá ætti spörtlun að geta byrjað í næstu viku. Alla vega á neðri hæðinni. Rikki ætlaði líka að reyna að klára að plasta einangrunina í loftinu núna næstu daga, þá er hægt að byrja spörtlun á efri hæðinni. Blikkarinn kom áðan með Árna byggingarstjóra, og hann sagðist ætla að koma á þriðjudaginn að gera það sem hann þyrfti. Rikki skilur þá eftir smá svæði í plöstuninni, svo hann komist að þakinu þar sem hann þarf.

Ég fór líka aðeins áðan uppí hús og krotaði lauslega á nokkrum stöðum á gólfið þar sem eldhúsinnréttingin kemur. Það lítur vel út og við gætum í raun örugglega bætt við einum skúffuskáp á lengdarvegginn ef við viljum, en ég hugsa að þetta sé fínt svona. Ég steingleymdi að taka myndir uppí húsi áðan, enda svo sem ekki mikið að taka myndir af. Bara leiðararnir komnir á gólf og veggi þar sem litlu léttu veggirnir á neðri hæðinni eiga að koma. Vonandi verða næstu myndir bara af veggjunum!

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Meira um innréttingar

Á meðan Rikki er á fullu að vinna í húsinu, þá ákvað ég að það væri kjörið að skrifa nýjan póst. Í dag kom efnið í gipsveggina og það tók víst dágóðan tíma að bera það inn. Núna er hann að múra uppí göt svo hægt sé að setja rafmagnsgrind og plasta einangrunina í loftinu. Það væri frábært ef við gætum byrjað á að setja upp veggina í vikunni, en við erum enn að bíða eftir blikkaranum sem á eftir að koma og gera gat í þakið fyrir lofttúðu. Hann hefur ekki látið sjá sig.

Annars fór ég í IKEA áðan og var að skoða baðherbergisinnréttingar. Við erum svo óákveðin með þær og sjáum í raun ekkert sem okkur líkar. Við viljum fá einhvers konar heildarlúkk á húsið, en erum í vandræðum og skorðum sett útaf eldhúsinnréttingunni. Við erum búin að vera að spá í háglans baðinnréttingar en aldrei almennilega tekið þær í sátt. Svo sáum við í IKEA fínar lausar einingar á bað sem eru í svona svarbrúnum, en þær passa alls ekki inná litla baðið. Hugmynd sem kom þá upp hjá mér (ja, eða Rósu í vinnunni) var að kaupa eldhúshurðir og setja á baðherbergisskápa (ja, eða eldhússkápa). Svo ég kíkti á það og fékk grunnverð sem mig vantaði til að geta reiknað þetta út. En þá benti starfskonan mér á að þau væru að fara að fá nýjar innréttingar fyrir bað sem væru með svona svarbrúnum hliðum en hvítum hurðum (hún hélt að það væri háglans). Það er svo annað mál hvenær það kemur?! Það er þá spurning um að láta duga að setja ódýru hvítu háglans innréttinguna sem við vorum búin að sjá í Innréttingum og tækjum á gestabaðið og bíða eftir hinni í IKEA á stóra baðið? Ó, well, best að reikna þetta aðeins saman.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

Vinnan heldur áfram

Í dag voru Rikki, Kristján Björn, Hákon, Bjössi og afi Kiddi að vinna í húsinu, þeir komu allri einangruninni upp í loftin, svo nú er komið loft á efri hæðinni! Hérna eru nokkrar myndir:


laugardagur, 8. nóvember 2008

Gardínur

Í vikunni bað ég um tilboð frá nokkrum gardínubúðum í bænum í rúllugardínur í húsið. Ég fékk hagstæðasta tilboðið frá Z-brautum á um 130 þús. En fékk líka gott tilboð frá Nútíma uppá um 150-160 þús. Svo ákváðum við að kíkja í Byko á útsöluna sem er í gangi þar um helgina og viti menn, við fundum þessar fínu rúllugardínur þar, bæði myrkra og screen. Við keyptum s.s. í allt húsið (nema í báðar svalhurðirnar) fyrir 35 þús! Svo við spöruðum okkur um 100 þús kall þar. Það er ágætt. Við þurfum að stytta allar gardínurnar, en getum gert það sjálf og settum það ekki fyrir okkur. Vonandi verður það ekki mikið mál.

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Tölvuteikningar af eldhúsinu okkar

Þetta sést kannski ekki mjög vel, en hérna er skipulagið á eldhúsinu:
Þetta sýnir "langa" vegginn þar sem helluborðið verður:


Þetta er veggurinn með ísskápnum, búrskáp og háum skáp með ofninum:




Hérna sést í átt að glugganum, þarna verður vaskurinn og uppþvottavélin:





Og síðast en ekki síst, tungan. Fyrir aftan hana kemur svo stofan.








Eldhúsinnréttingin komin

Þetta er kannski ekki í réttri röð gert. En í dag fór ég og festi kaup á eldhúsinnréttingunni. IKEA tilkynnti um allt að 25% hækkun á næstu dögum og það munar nú um það þegar maður er að kaupa innréttingu fyrir yfir 600 þúsund! Svo að við erum rúmum 600 þúsund krónum fátækari en einu stk eldhúsinnréttingu ríkari.
Þar sem bílskúrinn okkar er fullur af einangrunarull og bílskúrinn hjá tengdó er fullur af heimilistækjum, þá er spurning hvað við gerum við þetta. Kannski fer þetta í geymslu á vegum fyrirtækisins. Á morgun ætlar Rikki að ganga frá kaupum á efninu í gifsveggina, við þurfum kannski að athuga með loftaklæðningar líka, þær voru auglýstar á tilboði í Húsasmiðju bæklingnum, en það er spurning hvort nægt magn sé til fyrir okkur.
Kveðja,
Hildur

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Mjakast hægt

Nú er Rikki búinn að slípa alla veggina (að við höldum). Kemur betur í ljós þegar málari kemur að skoða. Handriðið er alveg komið upp, nú þurfum við ekki að hafa eins miklar áhyggjur að börnin (eða aðrir) hrynji niður um gatið. Meðfylgjandi myndir voru teknar í vikunni/um helgina. Það er lítið að sjá, en eins og sjá má á einni myndinni er öll fjölskyldan virkjuð í vinnu. Tengdapabbi kom og sópaði og tók til fyrir okkur.