Nú er allt efni fyrir gipsveggina komið í hús og í gær fór Rikki uppeftir og hitti Frey, nágranna okkar sem ætlar að hjálpa okkur að koma þeim upp. Þeir byrjuðu aðeins á veggjunum á neðri hæðinni og vonandi ná þeir að reisa þá fyrir helgi. Þá er allt tilbúið á neðri hæðinni fyrir spartl. Rikki var búinn að tala við málarann og hann virtist geta komið fljótlega. Ef það gengur upp þá ætti spörtlun að geta byrjað í næstu viku. Alla vega á neðri hæðinni. Rikki ætlaði líka að reyna að klára að plasta einangrunina í loftinu núna næstu daga, þá er hægt að byrja spörtlun á efri hæðinni. Blikkarinn kom áðan með Árna byggingarstjóra, og hann sagðist ætla að koma á þriðjudaginn að gera það sem hann þyrfti. Rikki skilur þá eftir smá svæði í plöstuninni, svo hann komist að þakinu þar sem hann þarf.
Ég fór líka aðeins áðan uppí hús og krotaði lauslega á nokkrum stöðum á gólfið þar sem eldhúsinnréttingin kemur. Það lítur vel út og við gætum í raun örugglega bætt við einum skúffuskáp á lengdarvegginn ef við viljum, en ég hugsa að þetta sé fínt svona. Ég steingleymdi að taka myndir uppí húsi áðan, enda svo sem ekki mikið að taka myndir af. Bara leiðararnir komnir á gólf og veggi þar sem litlu léttu veggirnir á neðri hæðinni eiga að koma. Vonandi verða næstu myndir bara af veggjunum!
fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli