mánudagur, 9. febrúar 2009

Eftir flutning

Nú heldur vinnan rólega áfram. Nú erum við alla vega flutt og getum dúllað okkur í því sem eftir er, en það er þónokkuð! T.d. er stóra baðherbergið alveg eftir, þ.e. eftir að flísaleggja og tengja öll blöndunartæki og klósett og koma upp baðkari og sturtu, sem og innréttingu. Þvottahúsið er eftir, þar á eftir að koma rafmagnsgrindinni í loftið og gipsa svo loftið, spartla allt og grunna og mála, sem og setja flísar á gólf og innréttingu með tilheyrandi vaski og blöndunartækjum upp. Siggi er nú búinn með sinn part, að ég held, það á kannski eftir að setja einhverja tengla í baðherbergið eða þvottahúsið, en rofarnir eru komnir. Hurðir eru komnar á öll svefnherbergin uppi, en það vantar hurðarhúninn á eina hurðina þar. Það er líka komin hurð á gestaklósettið niðri, með húni, en forstofuhurðina vantar. Það eru komnar höldur á flesta eldhússkápa, eða ja, á næstum allar skúffurnar, en vantar höldur á hornskápana og háu skápana. Búið er að festa klæðninguna á uppþvottavélina og tengja hana og helluborðið. Efri skáparnir í eldhúsinu eru komnir í hús, en eftir að setja þá saman og festa upp. Okkur vantar líka hurðarnar á þá, þær voru ekki til í IKEA. Gólfefni vantar ennþá á stigann og við eigum eftir að mála gluggana á neðri hæðinni, ja eða sko ekki gluggana sjálfa, heldur vegginn sem kemur inn í kringum gluggana, þ.e. þar sem gluggakistan ætti að koma og þar hringinn. Svo á eftir að festa upp ljós á mörgum stöðum. Halógen ljósin á neðri hæðinni voru auðvitað komin, en við eigum eftir að festa upp kúpul sem við keyptum fyrir gestaklósettið og við eigum eftir að kaupa eitthvað ljós sem kemur yfir eldhúseyjuna. Á efri hæðinni eru komin loftljós í öll barnaherbergin, en á eftir að festa loftljósið upp í hjónaherberginu, við erum ennþá að hugsa hvort við viljum nota það sem við keyptum eða fá okkur annað. Einn kastari er kominn á ganginn en eftir að festa hina 6, eða voru þeir 7 í viðbót? Við erum líka búin að kaupa klósettrúlluhaldara og handklæðasnaga á gestaklósettið en það á eftir að festa það upp. Þetta kemur allt smám saman, en allt þetta tekur tíma.
Rikki ætlaði að kíkja í Innréttingar og tæki í dag og skoða lausnir fyrir sturtur á gólf og jafnvel taka baðkarið og sturtuklefann líka. Hann ætlaði líka að skoða flísar í Álfaborg, en okkur vantar veggflísar á baðherbergin og einhverjar hentugri flísar á gólfið í sturtuna. Jamm, allt á leiðinni!

Engin ummæli: