þriðjudagur, 24. febrúar 2009

vinnan endalausa

Þó við séum nú flutt inn, þá er sko allt langt frá því að vera tilbúið. Frá síðasta pósti er búið að kaupa og festa upp ljós fyrir ofan eldhústunguna, festa fleiri höldur á eldhúsinnréttinguna (nú vantar bara á 2 skúffur undir ofninum), forstofuhurðin er komin upp með húni, ljóskastararnir eru komnir á ganginn og sjónvarpsholið uppi, ljósin eru komin upp í svefnherberginu og að auki við rúllugardínur í svefnherbergjunum er komin screen gardína fyrir svalahurðina uppi og myrkvunargardína í fataherbergið. Í gær hreinsuðum við svo útúr þvottahúsinu og Rikki grunnaði gólfið og stefnan er sett á að byrja að flísaleggja það í dag. Vonandi náum við að setja upp þvottavél um eða rétt eftir helgi. Hurðirnar á efri skápana í eldhúsið komu á föstudaginn, svo þær eru komnar í hús, en enn á eftir að setja saman skápana og festa þá upp. Rikki er líka búinn að festa klósettrúlluhaldarann og handklæðasnagana. En ljóskúpullinn á gesta klósettið er ekki kominn upp, og ekki enn búið að mála í gluggunum á neðri hæðinni.

Ég er líka búin að selja fullt af hlutum sem voru fyrir okkur, svo það er aðeins rýmra um okkur núna, bæði útí bílskúr og inní stofu. Við keyptum okkur líka sjónvarpsskenk í Rúmfatalagernum, en hann kemur bara vel út.

Enn eigum við eftir að kaupa og setja upp forstofuskáp og baðherbergið er alveg í sama ástandi. Nú er stefnan að Palli og Dísa komi um helgina og þá verður að vera búið að setja upp gardínur í aukaherberginu og festa hurðarhúninn á þá hurð. Við ætluðum að reyna að vera búin að setja upp screen gardínurnar á neðri hæðina fyrir helgi, en ætli það verði ekki að sitja á hakanum lengur, sérstaklega ef Rikki einbeitir sér að flísalögninni í þvottahúsinu. Það þarf líka að klára málninguna í gluggunum fyrst. Það er eitthvað sem ég geri næstu daga. Svo er nú vetrarfrí hjá SM á fim og fös, svo það er aldrei að vita hvort manni verður eitthvað úr verki þá!

Engin ummæli: