Jæja, þá er jólafríið búið og nú þurfa hendur að standa fram úr ermum. Það er lítið búið að gerast síðan fyrir jól. Málarinn kom ekkert milli jóla og nýárs, en píparinn kom reyndar aðeins. Hann kláraði eitthvað sem var eftir og setti þrýstingsmæla á kerfið til að athuga hvort þrýstingurinn haldist reglulegur, uppá hvort leki sé einhvers staðar. Mér skilst nú á Rikka að annar mælirinn sé ekkert alltof stöðugur, en að píparinn hafi ekki haft miklar áhyggjur af því og haldi að jafnvel sé bara einhvers staðar tappi sem er ekki nógu vel skrúfaður á.
Lofttúðan í þvottahúsinu lekur enn og lak víst svolítið í gær þegar það var rigning beint að ofan. Eitthvað þarf að kanna þetta vel.
Rikki fór annars á föstudaginn ásamt bróður sínum og pabba og þá kláraði Rikki að tvöfalda gipsvegginn í forstofunni í kringum rafmagnstöfluna, svo málararnir geta farið að spartla þar. En Kristján og Bjössi skrúfuðu saman fullt af eldhússkápum.
Í gær fórum við Rikki á smá útsölurúnt og náðum að eyða helling af peningum. Fórum í IKEA og festum kaup á háum skáp fyrir baðherbergið, en þá erum við alveg komin með fína innréttingu á baðið. Við keyptum líka halógenljós fyrir loftin á neðri hæðinni, þau voru í raun búin, en einhver hafði skilað nokkrum pökkum, svo við gátum akkúrat keypt það sem okkur vantaði. Einnig keyptum við vírkörfur í fataskápana, þ.e. nóg fyrir fataherbergið og forstofuna og jafnvel eitthvað auka líka. Við keyrðum svo alla leið í næstu búð við hliðina á, þ.e.a.s. Byko og keyptum þar screen gardínur í báðar svalahurðirnar á afslætti og festum þá líka kaup á blöndunartækjum fyrir sturtuna. Við fengum blöndunartæki fyrir baðið hjá Kjartani, manni Birnu sem vinnur með mér, en hann átti ekki tæki fyrir sturtuna. Þessi eru alveg eins, þ.e. í stíl og við fengum þau næstum því á 50% afslætti, ja eða kannski á um 40% afsl.
Í dag er stefnan hjá mér að fara aftur í IKEA og ná í það sem vantaði af skápunum sem við keyptum (þurfti að sækja á "efri lager") og jafnvel festa kaup á málningu. Þar sem eldhússkáparnir eru flestir komnir saman eru Rikki og Freyr farnir uppí hús og mér skilst að stefnan í dag sé að byrja að skrúfa upp eldhúsinnréttinguna. Þeir ætla líka að byggja kassann utan um klósettið á neðri hæðinni og bora út fyrir halógenljósunum svo að Siggi geti bara byrjað á að draga í þær dósir og tengja ljósin. Fljótlega í vikunni ættum við líka að geta byrjað að mála neðri hæðina og þá getur Siggi klárað allt rafmagnsvesen þar, setja alla rofa og tengla oþh.
Jæja, best að koma sér að verki...
sunnudagur, 4. janúar 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli